Óraunverulegt

I love people. I love my family, my children . . . but inside myself is a place where I live all alone and that's where you renew your springs that never dry up. - Pearl S. Buck

Name:
Location: Reykjavik, Iceland

Eg er eg. Ooh, eg held ad eg aetti ad vera heimspekingur

Sunday, June 25, 2006

Kaffi. Ég hugsaði mér alltaf að ég myndi á endanum taka hið stóra skref og ganga á meðal manna og njóta kaffis. Þar sem ég myndi taka fram einn rjúkandi kaffibolla, rétt dreypa á því milli munnvikanna og njóta bragðsins, líta fjarrænt upp í himininn á meðan ég hugleiddi heiminn og vandamál hans. Ég gat séð mig í anda, sitjandi á kaffihúsi, hlustandi á rólega tónlist, umvafinn ilm neyslunnar, fullkomlega sáttur við mitt hlutskipti sem aðnjótanda heimsmenningarinnar. Kaffi var mín trú, var minn hornsteinn áður en ég náði aldri til þess að njóta þess.

Kannski voru það þessi fyrirfram ákveðnu hugmyndir um ágæti kaffis sem gerði það að verkum að ég naut þess strax, frá fyrsta alvöru kaffibolla til þess næsta. Þar sem ég skelf af koffín neyslunni þá dettur mér aðeins í hug kostir þess að titra þar sem ég dreypti á guðaveigunum til þess að finna fyrir því.

Monday, June 19, 2006

Hérna er eitthvað sem ég vissi aldrei...

Ykkur til gleði og yndisauka ætla ég að láta fylgja hér tengil á ritgerð eftir Immanuel Kant. Ég bið ekki um mikið, lesið fyrstu tvær málsgreinarnar, ég held að það muni koma ykkur skemmtilega á óvart.

Linkur

Saturday, June 17, 2006

Tölvan mín veit ekki hvers kyns ég er. Ég er hálf þakklátur fyrir það, ég veit ekki hvers vegna. Ég held að það sé vegna þess að ef hún vissi það myndi það þýða að það skipti máli og hvers vegna myndi kyn skipta máli fyrir tölvu? Þetta er góður dagur á glasi-er-hálf-tómt mælikvarða. Hann virðist líka bara verða betri. Ég er ánægður að engin hefur haft samband við mig, aðeins ég við aðra. Gefur mér ástæðu til að dasa og horfa á skýin hverfa á bakvið rauðan sjóndeildarhring.

af einhverri ástæðu er ég innramaður í bleiku á meðan aðrir eru í gulli og silfri. Ætli ég sé þá bleikur draumur í augum annara? Varla bleikur fíll, ég hef ekki ennþá skapað mér rana.

Gleði glaumur og gáttaðir foreldrar yfir hvernig krakkarnir haga sér á sykursjokki. Fjölskylduboð eru yndisleg.

Monday, June 12, 2006

Sígarettureykurinn lagðist yfir kaffihúsið líkt og aska úr Heklugosi. Fólkið dró andan dýpra, vegna skorts á súrefni eða hreinni ávanabundni nautn gat ég ekki sagt um. Þar sem ég sat við valta borðið mitt með tvöfaldan expressó brennheitan undir vitjum mínum lagðist lyktin ekki jafn hart að mér. Venjulegur laugardagur í óvenjulegri höfuðborg óttans, Reykjavík. Aldrei bjóst Ingólfur sonur Arna við því að nafnið myndi henta betur með tímanum. Það hefði liðið yfir venjulegan Dana ef hann hefði stigið hér inn en Íslendingar á sinni venjulegri drykkjuhelgi þoldu að það virtist allt, eitrið settist ekki í þeim því það var nú þegar hluti af þeim. Klukkan var ennþá bara 10:00. Þetta var allt bara rétt að byrja...

Svo komstu inn, dálítið ringluð, dálítið völt, klædd einhverju sem gat varla kallast það. Einhvers staðar hafðir þú fundið baðstrandarföt en ákveðið að það væri of mikið. Sumarið var komið í klæðnaðinn en veðrið sagði annað. Varaliturinn var dökk rósrauður en varirnar dökkbláar, sáust þar sem stúturinn hafði klínt varalitnum til. Ef augun hefðu getað ákveðið í hvaða átt þau ættu að beina þá hefði ég giskað á að þau væru ljós-blá í stíl við næstum-hvítt hárið. Einhvern tímann hafði fjölskylda litið á þig og séð aðeins útlitslegan kost þinn en nú, nokkrum árum seinna, var það eina sem þú hafðir líkt og deyjandi rós rétt fyrir vetur. Þú passaðir strax inn.

Furðuleg fannst mér samt vinkonan sem þú drógst inn með þér sem virtist eins og sakleysið upp-málað. Kastaníubrúnt hár, sleppt niður í endalausa, hrynjandi lokka, augabrýrnar í óvenju-símetrískum bogum yfir dökk-brún augun, brostin af sakleysi, að það virtist. Klædd eftir veðri, gekk um í hálf-síðum frakka, dökkum, síðum kjól sem náði niður að öklunum. Ég tók eftir að ég var ekki sá eini sem sýndi undrun og aðdáun, enda óvenjulegt að eitthvað væri falið undir fötum nema það allra heilagasta, að það virtist, og stundum ekki einu sinni það. Ég varð heillaður, líkt og aðrir.

Þú tókst skref áfram, settist að borði vinkonu þinnar sem nú þegar var komin með bjór í hönd en þú virtist ekki einu sinni langa í nokkuð. Smám saman gægðust augnagotur frá óteljandi hornum skugga og horna, hver eftir aðra að leita að boðun til þín. Ég viðurkenni, að ég sjálfur sá mig fyrir í anda þar sem ég kom og sast niður, beint fyrir framan þig og starði í hálfkæringi í dökk-brún augun og heillaði þitt saklausa andlit með glettnu brosi. Seyðandi augngoturnar þínar litu í kringum sig og alls staðar brutust út bros í myrkrinu, sum glottandi, sum vongóð, sum í fullri einlægni sem gat ekki þýtt neitt nema svik. Og því meira sem þú færðir augun ótt og títt yfir alla varð seyðurinn magnaðri. En það var þá sem ég áttaði mig...

...því þú varst bókstaflega máluð sakleysi. Hver lína, hver minimalísk stroka yfir andlitið var fullkomlega fyrirfram ákveðið. Hárið var útpælt, stolið úr draumaverksmiðju bíómynda, dressið úr dauðum áratug og augngoturnar beint úr bókum tilhugalífsins. Þar sem sálin sýndi sig í gegnum fyrirfram ákveðna tíðni augngotunnar sást köld rökhugsun, fyrirfram ákveðin tilætlun um að vekja upp öfund og aðdáun allra en ekki gangast neinni freistingu á hönd sjálf. Þetta var hefnd, upprisa og sjálfselska allt rúllað saman.

Þar sem þú sast hjá þessum úthugsaða daðrara sá ég þig í öðru ljósi þó ekkert meira heldur en hálfdimmda kaffi-bars ljósinu, því jafnvel þótt þú værir engin engill þá varstu hálfu skárri en sú sem þú taldir vin. Þú vissir hver þú varst og hvað þú vildir meðan vinkonan vildi ekkert nema skella afskræmdri ranghugmynd sinni á aðra. Þú sýndir þitt rétta andlit en vinkonan var ein gríma. Verst að mér var mein-illa við báðar þessar ímyndir...



*Allar persónur er fullkominn uppspuni höfundar, dreginn úr hugarfylgsnum hans og kynnum, allur réttur áskilinn.

Saturday, June 10, 2006

Morgunsárið opnaðist fyrir mér af himnum, smá dropar sem vættu hár mitt. Steig upp í bílinn sem virtist vera hærri en venjulega, tók fram stigann og klifraði upp. Það var hvasst. Á meðan lagði ég af stað og raddir drundu í höfðinu sem ég reyndi að hrekja í burtu með Debussy. Fiðrildi klesstu á rúðuna hjá mér og sköpuðu ljósbláa himnu yfir henni. Það birti. Úti á landi drundu stáldýrin yfir auðnina á milli óljósra marka náttúru og menningar. Ég lagði landamærin með ljósastaurunum. Barnavagnar með vælandi bókum ruddust framhjá með foreldrana á hælunum. Settust að í hrauninu og mosanum. Eitthvað tengt náttúruvernd en ég hlustaði ekki. Lokaði eyrunum með því að fella þau saman. Það rifjuðust upp tjaldferðir með gömlum vinum og eldri trjám.

Ég kleif útúr bílnum, klifraði aftur upp og settist við stýrið. Engar raddir lengur. Óreglulegur blús lagði eyrun mín á flótta. Hvarf inn í innri meðvitund þar sem undirmeðvitundin hýrir sig nálægt gömlum eldglæðum minninganna. Meðvitaður um að ég væri geðveikur út af engri sérstakri ástæðu. Ég er mennskur, þarf eitthvað meira? Ég flaut áfram. Datt á milli ljósastaura, ljóskastara og mis-áhugasömum andlitum lítandi út í framandleika fortíðarinnar. Hver gat lifað hér? Amma mín gerði það, lang-amma mín einnig.

Og þegar ég kom tilbaka var allt öfugsnúið, ég steig upp úr sætinu mínu, sárið dró sig saman, engar raddir, engin Debussy. Ég horfði á fugl ráðast á kött nágrannans, kötturinn flúði. Á meðan sat fuglinn um hann, skapaði ný sár og opnaði önnur. Ég held að fuglinn hafi sleppt ormum fyrir ungana enda nóg að bíta og brenna.

Ég dró djöfulinn minn upp í rúm, bað hann um að bíða, bað hann um að gleyma og grafa gærdeginum. Djöfullinn lofaði en hélt engu og eftir örskotsstund hafði mér tekist að rifja upp eða niður meirihlutann af gærkvöldmatnum. Lá í móki. Stundi um stund. Sofnaði.

Dreymdi óhugnanlega óraunverulega ketti sem allir héngu á skottinu á meðan fuglar völdu sér læri og kvið. Útimarkaður í garðinum fyrir framan gluggann minn.

Vaknaði og leið betur. Ég náði mér niður á gærdeginum.

Ég veit ekki einu sinni af hverju ég reyni...

Wednesday, June 07, 2006

Ég gleymdi mér rétt á meðan þú komst við og sagðir að þú hafðir í raun engan áhuga á því að deila um hvort heimurinn væri blár eða grænn. Í þínum augum var heimurinn aðallega grár, uppfullur af svörtum og hvítum hugmyndum. Í raun töluðum við um sömu hlutina á okkar hátt. Við endum bæði í bláum blues.

Ég nefndi þig aldrei á nafn til þess að koma í veg fyrir misskilning því ég veit ekki ennþá hvort þú heitir eitthvað. Ég hef heyrt orðróm að nafn þitt beri sterkan svip af landinu, landvættunum eða landslaginu en ég hef ekki hugmynd um hvað það þýðir á mælikvarða útlendinga. Ég er viss um að þú vitir ekki einu sinni sjálf hvert nafnið þitt er, þú hefur aðeins hugmynd um það, grafið í undirmeðvitundinni. Ég áttaði mig á því hversu tvíræð við erum öll í samskiptum okkar því hver veit hvort að það sem við hugsum og segjum sé það sama. Misskilningur okkar margfaldast svo með hverjum manni.

Af hverju geta ekki fleiri verið eins og þú.

"Góðan daginn."

"Góðan daginn."

"Já, ætlar þú að fá þessar bækur lánaðar?"

"Uh, já, má ég taka svona margar bækur að láni?" Skeptísk, brosandi, óviss.

"Já já, ekkert mál. Þú mátt taka alveg 30 bækur og mér sýnist þetta ekki vera svo margar." Brosandi.

"Eina sem er hægt að gera í þessu veðri, lesa." Lítur út um gluggann.

"Jú, mikið rétt." Þögn. Glottandi: "Bara að njóta vonda veðursins."

Brosandi til baka. "Jú, mikið rétt."

Mér langar til að segja eitthvað sniðugt um bókavalið því eina sem þú tókst voru bækur um kvikmyndagerð. Mig langar til að segja að ég muni bíða eftir frumburðinum. Mér finnst það vera of nærgöngult.

Þess vegna þegi ég, þakka fyrir og brosi.