Óraunverulegt

I love people. I love my family, my children . . . but inside myself is a place where I live all alone and that's where you renew your springs that never dry up. - Pearl S. Buck

Name:
Location: Reykjavik, Iceland

Eg er eg. Ooh, eg held ad eg aetti ad vera heimspekingur

Monday, July 31, 2006

Við erum öll floginn út á nýjar slóðir og vitið þið, ég veit að ég mun vita það seinna. Hægt og bítandi breytist ég í einhvern annan heldur en sjálfan mig, Kafka-esque draumráðning á framtíð minni meðal manna.

Ég vil að þú hlaupir á eftir mér og kallir nafnið mitt á meðan ég geng hægt framhjá uppáhaldsstaðnum þínum í bænum, kannski jafnvel eina athvarfinu sem þú finnur í lífinu, bara svo ég viti að ég er hluti af lífi þínu. Ég mun reyna að gera það sama og um leið og þú áttir þig á að bara með þögn minni þá vef ég köngulóarvef í kringum bygginguna muntu koma. Ég dreg þig inn.

Mánudagar eru alltaf bláir og þessi er engin undantekning heldur er lögð ofuráhersla á þeim einkennislit þessa dags. Ég held að ég ætti að fara heim, láta Chet Baker í melonkolískri sveiflu sinni hræra í mér, draga úr mér einhverja týnda fegurð mannsins.

Ég stend á brún tómleikans en vitiði, tómleikinn er fullur af einhverju. Ég veit bara ekki hverju, langar að vita hvað það er sem veitir öðrum slíka ánægju að þau taka ekki eftir að leiksvæðið er tómt, ískyggilega undirlagt skuggum allt í kring á meðan bros læðast um andlit þeirra sem dansa í rigningunni. Ég held að fólk líti aldrei út fyrir brún tómleikans heldur leita sér huggunar og skemmtunar í fjölbreytileika andlita allra í kring þar sem hin fjölmörgu andlitsbrigði bregða fyrir ásjónir þeirra.

Ég get sagt að við verðum vinir á þeirri einföldu niðurstöðu að þú hefur lesið þetta, jafnvel meira. Ég óska þér til hamingju.

Sunday, July 16, 2006

Heppni námsmanna.

Núna upp á síðkastið hef ég verið að velta fyrir mér þeirri staðreynd að allir þeir sem vinna telja það ótrúlegustu heppni að fá að vera aðnjótandi þeirrar yndislegu félagslegrar aðhlynningar sem kallast skóli, þá sérstaklega Háskólinn.

Ég veit ekki um þá sem taka frá tíma til að lesa þennan texta en ég, persónulega, veit ekki alveg hver þessi heppni er. Ég hef heyrt um dýrðir og dásemdir þess að fá að skulda ríkinu fyrir að auðga land og þjóð með gáfum mínum með því að fara á námslán en þar sem ég vil ekki verða hluti af þeim stórvaxandi hóp ungra manna sem skulda frá 20 aldri og uppúr þá ákvað ég að sleppa því. Ég sem betur fer hef þá rænu til að halda mér í foreldrarhúsum (eins sjarmerandi og það hljómar) þar til ég hef klárað nám mitt. Það dregur verulega úr kostnaðinum mínum en samt finn ég mig knúinn til að vinna með skóla og svo í gegnum allt sumarfríið mitt. Þar sem það er búið að hamra því inn í mitt litla höfuð frá 13 ára aldri að vinnandi maður er eini maðurinn þess virði að vera þá læt ég til leiðast og stunda það með gríðarlegri ástundun.

Núna á þessu ári frá áramótum hef ég fengið, allt í allt, 5 vikur í frí. Þá tel ég með helgar. Ég hef unnið alla aðra daga, hvort sem það er skólinn eða vinnan. Ég býst við því að vinna að minnsta kosti aðra hvora helgi, allt sumarið og svo beint í skólann (helgarvinnan náttúrulega með). Ég nánast græt af "þakklæti" yfir heppni minni sem námsmanni.

Annað sem kemur oft fyrir að þeir sem stunda ekki nám telja nám vera hálfgert frí þar sem ekki er nein hætta á að fólk verði rekið og þar að auki er maður í námi af fúsum og frjálsum vilja. Þar sem þeir taka ekki inní myndina að það er ætlast til að fólk stundi námið líkt og vinnu, skili verkefnum, vinni sjálfstætt (sem ekki margir geta gert) og það er ekki aðeins einn yfirmaður sem maður hefur, heldur einn fyrir hverja námsgrein sem heimtar nákvæmlega jafn mikils metnaðs í öll verkefnin og allar námsgreinar. Helmingur eða meira er einnig skylda í námi, þar sem fólk ræðst af duttlungum kennara og yfirvalda. Sá helmingur námsefnis sem "þarf" að gangast undir, þó það tilheyri á yfirborðinu sama áhugasviði, þá tilheyrir það alls ekki í öllum tilfellum sama áhugasviði námsmannsins. Ofan á allt þetta fer það mikið eftir hver kennarinn er hversu skemmtilegt námsefnið er.

Þið sem hafið tekið að ykkur að vinna í samfélaginu hlæið jafnvel af þeirri staðhæfingu sem þessari, að námsefnið þurfi jafnvel vera skemmtilegt þegar maður er nú þegar í hálfgerðu fríi. Hugsið ykkur nú þær vinnur þar sem yfirmaðurinn ykkar ákvað að eina leiðin til að fá fólk til að vinna var með því að hugsa um fólkið undir honum sem: "Orma, hugsunarlaus kvikindi, fólk sem gerir mistök" og segið mér svo hversu lengi þið tolluðuð í slíku starfi. Jæja, núna fáið þið valmöguleikann að mæta til slíks yfirmanns og vera í návist hans nokkra tíma í viku, auk þess að skila verkefnum og fá tilbaka yfirfullt af gagnrýni á galla þína. Hugsið ykkur nú að þið verðið að standast þennan kúrs, sérstaklega fyrir þá sem eru á námslánum (annars fá þeir ekkert) og bara yfir höfuð til að geta haldið áfram í námi. Hljómar eins og frí, er það ekki?

Ef þetta er ekki nóg þá er kennsla eitt minnst virta staða í þjóðfélaginu í dag miðað við mikilvægi. Ég veit ekki alveg hverjir eru í stjórnarstöðum flestra fyrirtækja eða þeir sem eru á fremstu víglínum menningar, iðnaðar, framkvæmda o.s.frv. en ég held að þeir hafi ekki hætt í skóla eftir 10. bekk. Í raun held ég að þeir hafi haldið áfram námi alveg í gegnum fyrstu gráðuna í Háskóla og oftast lengur. Ef við tökum nú að þeir sem kenna þessu fólki séu í raun að reyna að fræða það á launum sem eru í raun ómannsæmandi þá velti ég fyrir mér hversu ánægðir þeir eru að taka að sér hlutverkið að uppfræða landsmenn þegar ríkisstjórninn virðist ekki einu sinni sýna því áhuga. En þar sem þær sýna engan áhuga þá vil ég benda á nokkra hluti:

1. Ég tek enga ábyrgð á neinum stafsetningarvillum þar sem ríkisstjórn hefur engan áhuga að borga fyrir aðhlynningu og varðveislu tungumálsins. Enskuslettur eiga þar heima einnig.

2. Ekki búast við að íslenskir menntamenn sem séu á heimsmælikvarða hvað varðar hvers kyns fræðistörf og menningarlega tengda viðburði. Ef svo er, ekki láta það koma þér á óvart að þeir kunni engin íslensk fræðiheiti því þeir hafa þá allir að öllum líkindum lært úti.

3. Kennarar eiga eftir að finna sér önnur störf sem býður þeim hærri laun.

4. Munið eftir fólkinu sem einbeitti sér lítið að námi, féll nánast í öllum kúrsum og gat ekki haldið fyrirlestra? Þeir munu kenna börnum ykkar í skólum því það er staðan sem þeir geta fengið, auðveldlega.


Sem dæmi að þessu þá er viðurkenni ég fúslega að viss vinahópur sem ég umgengst talar 50/50 ensku/íslensku, jafnvel frekar ensku. Þeir hugsa, tala og skrifa jafnvel nú orðið á ensku. Mörg fög eru ekki kennd til masters-náms því það eru fáir sem geta kennt það og oft líka lítið fjármagn. Ég persónulega veit um kennara sem hafa horfið frá kennslu til að keyra strætó (betur launað) og vinna á bókasafni (einnig betur launað). Annar aðillinn kenndi við Háskólann. Einn af þeim sem ég þekki sem vinnur hálaunað starf innan borgarinnar minntist á að sá sem kenndi mér í skóla var einu sinni mesti tossinn og virtist ekki eiga auðvelt með lestur, nám eða tjáningu. Ég veit ekki hvað þetta segir um íslenskt skólakerfi en ég get fullvissað um það, Háskóli Íslands á ekki eftir að komast á kortið sem einn af betri skólum Evrópu með þessu móti.

Viðhorf gagnvart skólafólki hefur aldrei verið gott. Viðhorf gagnvart kennslu hefur fallið og launin þar á meðal. Markmið ríkisins er víst að skapa meira vinnuafl í frystihúsum, skipum og álverum frekar en hátækni-iðnaði. Ég þakka því mínum lukkustjörnum að ég sé námsmaður. Takk.

Friday, July 14, 2006

I'm spreading out the love...

Thursday, July 13, 2006

Hvar byrjar maður þegar botninn er það eina sem maður sér? Hvernig er hægt að gera nokkrum skiljanlegt hvernig manni líður þegar allt fyrir ofan er jörðin sem þú sökkst niður fyrir svo löngu að þú mannst ekki einu sinni hvernig það gerðist. Allt byrjar einhvers staðar en það er vandamálið: Byrjunin á sér upphaf og upphafið sína byrjun. Einhvern veginn verður allt að einni stórri heild sem kallast framvinda tímans sem líður framhjá, einhvers staðar á milli A og B framhjá þér í flestum tilfellum, framhjá mér, að það virðist, alltaf. Ég get ekki byrjað. Kannski ég byrji bara þá á því...

Ég trúi ekki að ég muni finna mig í framtíðinni nema þá einn og yfirgefinn líklegast í skurði, hálf dauður en alveg sama. Ég bið ekki um vorkunn. Ég bið ekki um tár. Helst væri mig vænst um að enginn geri nokkurn skapaðan hlut svo ég viti ekki að ég er staddur í skurðinum, liggjandi í drullubaði og stari út í himininn, leitandi að stjörnum í sólskininu. Ef ég er heppinn dey ég þar, óafvitandi, ótruflaður og algjörlega ómeðvitaður um eyðslu mína á þeim dýrmæta tíma sem mér var gefinn eða fékk að láni.

Ef þú ert að lesa þetta og ekki kominn með kíminn svip hefur áætlunarverk mitt mistekist.

Ég geng í myrkrinu. Það er betra heldur en birtan. Ég veit ekki enn af hverju hálf-flöktandi ljós ljósastauranna vekja meiri hlýju hjá mér heldur en sólin en um leið og ég veit munu þið vita það eins fljótt og mögulegt er.

Ég velti oft fyrir mér hvort að það sé allt í lagi með mig. Er ég sá eini sem getur stundum ekki risið frammúr rúminu? Þar sem loftið fyrir ofan rúmið sé alveg nógu stórt og ógnvekjandi að aðeins tilhugsunin um að standa andspænis nýjum degi dregur mann niður. Þar sem sekúndurnar virðast líða áfram aðeins af vana, ekki vegna þess að hið ótrúlega meistaraverk sem kallast heimurinn er síbreytilegt í sínum eilífu enduruppgötvunum.

Ég sé mig stundum standa fyrir framan glugga, lítandi í spegilmyndina af sjálfum mér þar sem ég er spyrjandi sömu spurninga aftur og aftur. Hvað kemur í veg fyrir að ég grípi gæsina, njóti þess litla sem mitt líf hefur upp á að bjóða og geri það sem ég vil nauðsynlega gera? Í hverjum glugga sé ég árstíðirnar líða framhjá, stundum snjókorn sem flögra í norðangolunni, stundum laufin í vesturvindinum, dropar úr austrinu og suðrið með sína sælu vinda þýða og alltaf sé ég mig þarna, standandi, starandi tilbaka, geyflandi framaní ókunnuga sem líta út um gluggann í leit að hamingju.

Tónlist. Það vekur upp minningar, tilfinningar og löngu horfnar langanir sem virtust svo nálægar en jafnframt hugarburður þeirra ástfangnu. Þegar orðin þýddu eitthvað. Kannski var það ekki einu sinni nauðsynlegt heldur gæsahúðin og göngulagið sem aðlagaðist taktinum, brosið sem breiddist hægt og þétt yfir sorgmædd munnvik. Undir áhrifum tónlistarinnar fann ég mig oftast velta fyrir mér heiminum og leysa hvert vandamál á fætur öðru, oftast minniháttar margslunginn persónuleg vandamál sem virtust fyrst og fremst snúast um hvernig það væri hægt að koma því kring að koss yrði smelltur á réttum tíma. Seinna varð það hvers vegna kossinn var aldrei smelltur. Núna er það fyrirfram ákveðinn trú um óbreytileika þeirra aðstæðna sem ég hef leitt sjálfan mig í: Einsemd, og sú tilraun mannsandans til að gera hana að hluta af sjálfum sér.

Ég vil sökkva mér, eða eins og ljóðskáldið orðaði það, ölva mig en einhvern veginn eru þær fáu nautnir sem ég vil njóta alltaf vera lokaðar mér, utan seilingar. Þar sem verkinn tala lítið lætur ímyndunaraflið til sín taka í tónlist, skrifum og líðandi stundum stundaðar í einangrun á köldu parketgólfi, hugsandi. Ég vil allt þetta og meira sem óþarfi er að nefna þar sem fátt annað liggur á mannshuganum. Stundum vil ég kenna þessum mannlega þætti mínum um hvernig ég er. Stundum vil ég halda því fram að ég geti ekki gert það sem ég vil fyrr en mannsandum hefur verið hlítt.

Sælir eru saklausir en hvað um þá sem eru það ekki lengur og geta ekki snúið tilbaka?

Hugur minn er uppfullur af skoðunum og pælingum. Ég hef ekki viðrað nema brot af þeim og mig langar meir og meir til að birta aðrar. En á meðan hugur minn fyllist af hugsunum brýst ein óviljandi fram, líkt og fiðrildi nýskriðið út í vorblómann: Hvað er svona merkilegt við mínar skoðanir og pælingar? Hver hefur ekki hugsað svipað, jafnvel gáfulegri hluti en þessa? Þannig ég sný baki gagnvart mínum eigin hugsunum á þeim forsendum að einhver annar þarna hlýtur að koma þeim á blað, einhver sem hefur meir um málin að segja heldur en ég, einhver sem hefur kynnt sér aðstæður. Ég er minn eigin versti gagnrýnandi og þar er ég ekki heldur einstakur.

Ég hef ekki hugmynd um hvert ég stefni með þessu. Eitthvað sem ég viðurkenni fúslega enda er óvissan það eina sem ég er fullviss um. Ég tel mig stundum sjá framtíðina ljóslifandi fyrir framan mig, brosandi sínu blíða brosi, andlitslaus og án ákveðinna útlína. Þegar hún hverfur, líkt og hún hefur gert í hvert skipti hingað til, vona ég aðeins að hún komi aftur. En það var áður. Síðan vonaði ég að ég í rauninni vonaði að hún kæmi aftur. Núna vona ég að framtíðin snúi við baki án þess að líta á mitt aumkunnarverða andlit og ákveði áður en lengra er haldið að framtíðin hafi of oft gert mér lífið leitt.

Ég veit hvert tilfellið er með þennan texta líkt og alla aðra: Hann verður lesinn, fólk veltur vöngum yfir skilaboðunum, gleymir honum og heldur áfram. Skortur mannsins á samkennd verður mér til bjargar. Skortur á því mannlega í manninum verður mér til bjargar. Að minnsta kosti get ég vonað.

Tuesday, July 04, 2006

Þar sem engin nennir að blogga nema ég þá hef ég tekið að mér það verkefni að skrifa fyrir þá sem ekki hafa séð sig fært um að uppfræða landan um gjörðir sínar. Þar með byrjar:

Kristinn sem Eiður -

Ég kvaddi engan hita heldur hélt innreið mína í Danmörku. Á móti mér tóku við enn önnur landamæri og núna voru það hálf-kenndir Danir með vínarbrauð við hönd. Ég bjóst við að sjá Olsen gengis gaura sem væru illskiljanlegir, alveg sama á hvaða tungumáli þeir spreyttu sig á en ekki var það raunin. Í staðinn tóku við hálfsofandi hugmyndasnauðir fótboltabullur sem héngu yfir sjónvarpinu og gátu ekki verið meira sama þótt að Muhammad Ég-er-með-sprengju-inn-á-mér kæmi í gegn.

Við fórum svo á Hróa fengum okkur bjóra og aðeins meira en fjóra. Stóra. Við létum upp tjöldin og góða skapið. Um kvöldið fóru allir úr tjaldi og sváfu úti því það var of heitt inni.

Tónleikarnir voru ágætis tímasóun, Roger Waters m.a. (og ég borgaði svipað fyrir ALLA tónleikana og þeir sem borguðu á Íslandi, HA!).

Komin heim núna í suddan. Takk.

Kristinn sem Stebbi

Var veikur núna fyrir stuttu og engin tók eftir því, engin sendi mér samúðarkveðjur. Hvað er að ykkur?!? Svekkelsi. Bætti líka við í kommentunum og engin sagði neitt heldur. Tvöfalt svekkelsi. Einn maður minntist á trúbadorana og hann telst í raun ekki með. Þrefalt svekkelsi. Síðan mín er komin í fullkomið form, lítur geggjað út, búinn að eyða tíma, svita og tárum, bið um ykkar viðhorf og ekkert. Fjórfalt Svekkelsi. Ég útnefni þennan dag dag svekkelsisins.

Bæó

Kristinn sem Heiðar

Hrói var frábær eins og venjan er. Voru margir Íslendingar í góðu stuði, Carlsbergin í hönd. Sá marga skemmtilega gaura, svo sem Roger Waters o.fl. Stuð.

Ég hef eiginlega lítið að segja. Því verðið þið bara að láta ykkur þetta nægja, krakkar mínir.

Blessuð.

Kristinn sem Þórður

Flytja. Ekki skrifa. Útlönd. Of mikið. Múmú annars góður.

Kristinn sem Atli

Hróarskelda maður, Hróarskelda. Geðveikt kúl. Sá helling af hljómsveitum, Roger Waters m.a, hann fær alveg 5 stjörnur held ég bara, frábært. Búinn að fara á nokkrar myndir núna upp á síðkastið og það á eftir að koma dómar um þá seinna, ég bara hef ekki tíma núna. Meira af Hróarskeldu.

Mikið af fólki og vinum einnig. Hitti Eið, hitti Heiðar, hitti fleirri gaura úr MH sem ég þekki, hitti fólk úr barnaskóla sem ég þekkti, hitti fólk úr Háskólanum sem ég þekkti. Hékk hjá tjaldinu, var ekki líft inni. Alveg rosalegur hiti, ég þoli þetta bara ekki.

Annars, Peace out! Hér er nokkrir diskar

Mugison - Niceland 4*
Amina - Animamina 3.5*
Tonik - And the Beat goes on
Mannakorn - Spilaðu lagið 4.5* (besta hljómsveit Íslands fyrr og síðar)

Kristinn sem Ásta

Gíraffinn lét titilinn "Stríðnasta dýr Íslands" í hendur Hettumávanna. Þeim tókst að skíta yfir mig og stela seinasta pylsubrauðinu.

Kristinn sem Krizzus

Þetta sukkar.
Nuff said.

Monday, July 03, 2006

Ég vaknaði í morgun. Eitt af þessum litlu kraftaverkum lífsins. Ég veit ekki ennþá hvernig ég fór að því en mér tókst það. Mig dreymdi líka draum. Ég hins vegar gef heilanum mínum fullt kredit fyrir það. Engu kraftaverki myndi detta þvílík sturlun í hug, aðeins hugur minn. Ég man hins vegar ekki hvað mig dreymdi, man bara að ég vaknaði og hugsaði: "Vá, heilinn minn er sturlaður." Svo fékk ég mér efnabreytta hafrahringi í morgunmat með gerilsneyddri mjólk úr belju.

Ég held að ég hafi aldrei verið jafn persónulegur og í þessari seinustu málsgrein. Ég hef aldrei verið mjög persónulegur einstaklingur. eiginlega án persónuleika, þar með ekkert persónulegur. Persónulega held ég samt að persónuleg samskipti séu of persónuleg. En snúum okkur að öðru.

Ég las bók um stærðfræði yfir helgina. Á innan við 200 bls. tókst þessari bók að útskýra fyrir mér betur hvað í F-inu ég var að gera seinustu 2 árin í menntaskóla í stærðfræðinni heldur en 4 mismunandi kennurum á eins árs tímabili. Ég veit ekki hvað það er en ég held að kennsla í stærðfræði sé ábótavant. Í tilefni af þessu vil ég benda á skemmtilega bók sem má nálgast á netinu. Hún heitir því skemmtilega nafni Flatland og fjallar um ferning og vináttu hans við hring þar sem þeir ferðast um víddir heimsins, 2d rúm 3d rúm o.fl. Ég hef ekki lesið hana, veit hins vegar að hún er bráðskemmtileg og auk þess að fjalla um stærðfræði þá er hún beitt ádeila á Viktoríu-tímabilið í Englandi. Einnig er stuttmynd til gerð eftir þessari bók en hvar það sé hægt að eignast það meistaraverk veit ég ekki, aðeins að það er hægt að fræðast um þetta á wikipedia.org og imdb.com.
>Þessi fræðslumoli var í boði einhvers-sniðugs-einstaklings-sem-ég-man-ekki-hvað-heitir-því-ég-hef-ekkert-minni.<

Ég er Djúpt hugsi. Hugsa um Nóa. Ég held að þetta sé Siríus. Ég held að ég ætti að fá borgað fyrir þessa auglýsingu. Ef ekki fyrir Þetta þá fyrir Hitt. Ég held að ég sé fyndinn. Innsæið mitt hlær að mér.