Óraunverulegt

I love people. I love my family, my children . . . but inside myself is a place where I live all alone and that's where you renew your springs that never dry up. - Pearl S. Buck

Name:
Location: Reykjavik, Iceland

Eg er eg. Ooh, eg held ad eg aetti ad vera heimspekingur

Thursday, April 06, 2006

Kom aðeins of seint en það gerði ekkert til. Ekki enn byrjað. Hitti vinkonu mína í andyrinu. Gekk inn og leitaði að stað til að vera á. Sá fólk sem ég þekkti. Samt þekkti hann Atli fólkið betur. Vinkona úr MH. Alltaf fundist hún sæt, eitt fallegasta bros sem um getur. Ég stóð til hliðar, brosti, reyndi að vera ekki of pirrandi. Fundum stað. Beið einn á miðju gólfi. Sast niður. Lokaði augunum. Skvaldrið yfirgnæfði tónlistina nánast sem hélt taktinum í samræðunum sem líflegustum. Opnaði augun. Fólkið þéttist smám saman, settist að eða gekk framhjá. Lokaði augunum. Ég reyndi að greina mismunandi raddir, þær sem voru nær, fjær, í kring. Vinur minn kom.

Á meðan á uppfyllingarsamræðunum stóð þá byrjuðu tónleikarnir. Mammút. Ég sá strax fjölskyldusvipinn á milli þessarar vinkonu minnar og bassaleikarans sem er systir hennar. Tónlistin byrjaði, dúndrandi í kokinu í takt við bassatrommuna. Ég ímyndaði mér að það væri augnsamband á milli söngkonunnar og míns. Ég sá aðeins hana. Truflaður af gaurnum fyrir framan mig sem gat ekki verið kyrr. Alltaf fyrir. Og fyrri hlutanum lauk jafn fljótt og hann byrjaði.

Og núna leið tíminn hægar, hægar því núna var það aðeins bið eftir því sem ég kom til að sjá. Og biðin hélt áfram. Skvaldrið byrjaði á ný, uppfyllingarsamræður byrjuðu aftur, sviðið var undirbúið. Svo varð allt dimmt á sviðinu. Fjólublá ljós og tekið undir af þvílíkum fagnaðarlátum að það var líkt og þögn hafi ríkt áður. dEUS. Tónlistin byrjaði hægt. Birtu lýst á söngvaran. Ég þekkti ekki lagið, en ég bjóst ekki við því. Ég hafði ekki hlustað á marga diska með þeim, aðeins einn reyndar. En ég vissi að ég myndi fíla þá. Með tónlistinni fór hið venjulega flakk fólksins af stað. Reykingar fóru að aukast. Þéttleiki jókst. Og fyrir framan mig var eitt ofvirkasta fífl allra tíma komið. Ég minntist Tasmaníudjöfulsins í útgáfu Denis Leary. Og á meðan ég þekkti ekki lögin þá var ekkert sem fyllti hug minn nema þessi einstaklingur sem hafði tekið upp á því að klára tvær tequila flöskur rétt á meðan hann sniffaði eina kók-línu. Amfetamínið var á ekki ennþá kikkað inn. Og vinir hans komu. Hryllingur fór um mig. Ég gat ekki losnað við þennan mann sem gerði allt sem hann gat til að hoppa, traðka, ganga, dansa, vagga og syngja sig inn í mitt persónulega svæði.

En vinir hans komu mér til bjargar. Þeir horfðu á hann jafn gáttaðir og leiddu hann nær sviðinu mér til mikillar ánægju. Ég fór að fylgjast með tónlistinni. Ég fór að einbeita mér að taktinum sem byrjaði hægt og bítandi að smita fæturna, höfuðið og hendurnar. Riþminn náði tökum á mér. Augnablikið tók völdin. Ég féll í endalausum hrynjanda eilífrar taktfastrar veraldar tónlistarinnar sem aðeins er hægt að lýsa á einn hátt: Töff. Þá kom lagið sem ég hafði beðið eftir. Hvert orð rann af vörum mínum í fullkomnu sinki við rödd söngvarans. Og á meðan ég öskraði úr mér lungun heyrðist ekkert vegna þeirrar yfirgnæfandi ununnar sem fylgdi hinni fullkomnu tónlist. Ekkert komst inn í hug minn nema þetta lag, þetta augnablik, þessi staður, þessi lykt, þessi tilfinning. Og meðan hámarkinu var náð og rödd mín hvarf endanlega í mannhafið lauk því líkt og ekkert hafði gerst. Ég færði mig nær.

Þegar ég gerði það ruddist inn í mitt persónulega svæði augngotur frá tveimur stelpum sem stóðu fyrir framan, pískrandi. Einbeiting var byrjuð að dofna. Hvað eru þær að segja? Hvað finnst þeim um mig? Hvers vegna eru þær alltaf að líta við? Eru þær hrifnar af því sem þær sjá? En svo brosti ég með sjálfum mér. Auðvitað ekki. Og ég hvarf aftur inn í tónlistina. Ég hellti öllum mínum tilfinningum, öllum mínum hugsunum, allt sem hafði angrað mig og ég varð hluti af tónlistinni. Tilfinningarnar mínar réðust af tilfinningu lagsins. Í sorg þess, í ánægju þess, í hatri þess, í ást þess fann ég sjálfan mig endurspeglast. Meðan liðu lögin hjá hvert á fætur öðru og hvert sinn fann ég minna til.

Og svo annað lag sem ég þekkti. Ekki bara ég heldur allir. Og allir í salnum urðu að einni heild þar sem söngur okkar yfirgnæfði rödd söngvarans. Ég fann blóðið streyma hraðar, gæsahúð sem því fylgdi leið yfir húðina í fullkominni öldu, frá hársverðinum niður eftir líkamanum. Og svo hættu þeir. Það var klappað, það var stappað, það var öskrað, einstök framtök eða í sameiningu. Þeir komu aftur og héldu áfram draumnum mínum. Fullkomnum, draumlausum draum.

Og svona leið kvöldið, í algleymi á sjálfum mér, því sem ég er og stend fyrir. Ég snéri tilbaka, nauðugur en ánægður. Allt endar, einhvern tímann. Enn hef ég ekki fengið röddina tilbaka sem stendur ennþá fyrir framan sviðið, öskrandi.

6 Comments:

Blogger Eiður said...

bíddu komstu semsagt á sjéns?

8:29 AM  
Blogger Atli Sig said...

Við hreinlega vöðum í kvenfólki!

9:29 PM  
Anonymous Anonymous said...

en hvernig voru tónleikarnir?!?!?!

6:25 AM  
Blogger Kristinn said...

Góðir.

7:12 AM  
Blogger Ásta Heiðrún Elísabet said...

varstu bara að rugla í höfðum okkar með því að láta okkur blogga daglega?
bloggfræðileg tilraun?

7:31 AM  
Anonymous Anonymous said...

Hvar er bloggarinn?? Það er ekkert á netinu, þú verður að redda því og blogga.
,,we want chilly willy!"

9:10 AM  

Post a Comment

<< Home